Thursday, July 10, 2008

Við höfum það fínt...........



Fararstjórinn sagði að þetta væri hættulaust. Hún yrði bara að passa sig að detta ekki.
Annars er maður annaðhvort að njóta sólarinnar eða vinna eða taka á móti gestum sem nóg er af.
Þannig að það gefst ákaflega lítill tími til að blogga. Erum nýbúin að kveðja mömmu, (sem var voða gott að sjá) og Ástríði vinkonu Arndísar sem kom ein og var hjá okkur í viku við mikinn fögnuð þeirra beggja. Hún var ótrúlega dugleg að koma, vera og missa sína fyrstu tönn hér hjá okkur. Engin vandræði og ótrúlega stillt dama. Svo erum við að fara að taka á móti Söru sys og hennar föruneyti í tvo daga og degi eftir að við kveðjum þau koma Dóri, Harpa og litli kúturinn þeirra Víglundur Hinrik sem ég, bæ ðe vei hef ekki hitt í eigin persónu enn. Gaman hjá okkur.
Jón Óli er með hjólabrettabakteríu á háu stigi og við lögðum hann inn á stofnun sem heitir Copenhagen Skatepark, þeir taka víst á móti svona keisum.
Arndís er söm við sig teiknar eins og herforingi með listamannsgáfu og leikur og les fyrir utan að greiða sér á hverjum morgni helst áður en hún pissar. Hennar kvalití tími er með mömmu sinni í H&M.
Hildur er komin með ofur heyrn á hægra eyra eftir að hafa þjálfað sig með símanum í nokkra tíma á dag, svo er hún líka mjög dugleg að hlaupa og svo vigtar hún oní sig matinn... Hvað er það??
Ég reyki eins og atvinnumaður í þeirri grein og þjálfa upp hugann með því að hugsa um allt sem skiptir ekki máli. Þess á milli nýt ég þess að búa hér, sem og við öll.
Góðar stundir.

Sunday, June 22, 2008

Sumarfrí

Nú er staðan sú að ég er búinn í prófum og stóð ég mig vel, þar af leiðandi er ég kominn í smá sumarfrí þangað til ég fer að vinna núna á næstu dögum. Ég snapaði mér vinnu með þremur bekkjarfélögum. Við munum gera heimasíðu fyrir danskt útgáfufyrirtæki (ef allt gengur að óskum). Annars erum við með gesti um þessar mundir. Oddný og Bjarki frá Neskaupsstað eru hér með 4 af fimm börnum sínum fram á þriðjudag og í dag lendir mamma og Sara systir með börnin sín og munu þær vera hjá okkur eftir þriðjudaginn. Hér er því búið að vera svaka fjör. Strax eftir prófið datt ég í flensu og er að reyna að ignora hana eftir dag í bælinu í gær. Börnin eru í góðum gír að vanda og styttist í að þau komist í sitt skólafrí. Svo er auðvitað spenna fyrir því að hitta ömmuna sem Arndís hefur ekki hitt í slétt hálft ár. Bið að heilsa í bili og takk fyrir commentin á fyrri fæslum, alltaf gaman að sjá hverjir eru að fylgjast með.

Saturday, June 14, 2008

Hmmm

Með stakri lagni hefur mér tekizt að forðast grillpartí þessa dagana. Mér finnst brunabragð vont og bragð að barbekjú-smurolíu finnst mér enn verra. Sjálfur grilla ég aldrei úti, enda er öruggara að elda innan við glugga. Svo á ég hefðbundinn grillofn. Því þarf ég hvorki útigrill né lungnabólgu. Mín reynsla er, að grillarar framleiði vondan mat fyrir sérhæfðan smekk, samkvæmt formúlunni: "Það er vont, en það venst". Matur hefur ýmiss konar bragð og hvert bragð er öðru merkara. En matur af útigrilli hefur allur sama bragð af bruna og barbekjú-smurolíu. Góður er grilllaus dagur.
Jónas

Tuesday, June 10, 2008

Loksins!!




Eftir puð og púl í Skólanum þá loksins gef ég mér tíma til að setja eitthvað inn.
Ástæðan fyrir bloggleysi mínu er mikil útivera og annir í skólanum. Ég búinn að skila síðasta verkefninu og fer í prófið 18. júní. Hér hefur verið steikjandi hiti síðustu tíu dagana og börnin eru glöð sem aldrei fyrr í blíðunni.
Jón Óli keypti sér einhjól og er búinn að ná ótrúlegum tökum á þvi og það styttist í að við getum selt hann í sirkus. Hann keypti hjólið og svo fórum við beint í bæinn að hitta Rönnu og Kitta. Þar sátum við á kaffihúsi á meðan J.Ó. æfði sig fyrir framan. Hann var fljótur að ná athygli vegfarenda og stal senunni frá hljómsveitinni sem spilaði fyrir gesti og gangandi. Í lokinn stóð einn hljóðfæraleikarinn upp og gaf honum pening. það vildi til að það var banjóspilarinn sem kom og við náðum að knýja útúr honum banjó-kennslu fyrir Jón Óla næsta haust (hann keypti sér banjó fyrir ári og við höfum leitað af kennara síðan).
Arndís er rosalega glöð því pætagogar eru í verkfalli(áfalli segir J.Ó.) sem þýðir að hún má koma beint heim eftir skóla en þarf ekki að fara í frítidshjemmið. Hún er einnig farin að berjast fyrir því að labba ein í skólann, finnst það rosa töff.
Allir hlakka rosa til að fara í skólafrí sem gerist þann 27. hjá börnunum og planið er að vera hér í sumar og taka á móti vinum og ættingjum, vinna smá eða mikið ef færi gefst og ferðast pínu. Eigum enn laus pláss í gistingu fyrir vini og skyldmenni.
Smellið á myndina til að sjá hana enormus!!

Tuesday, May 20, 2008

Gorch fockarar komnir til baka


Þið sem þekkið mig ættuð að vera jafn surprised og ég sjálfur. Við sem sagt ferðuðumst 1600 kílómetra til Wilhelmshaven og til baka til þess eins að hlaupa. En ferðin var vel þess virði. Ég hljóp mína 10 km og lenti í 13. sæti í mínum gáfnaflokki og Hildur gerði okkur öll kjaftstopp og kláraði sína 21 kílómeter með stæl ásamt henni Binnu, vinkonu sinni. Við vorum ótrúlega stolt af henni en hún á nú pantað í hnjáskiptiaðgerð í LA þann 34 júní.
Félagskapurinn var skemmtilegur og borgirnar Hamburg, Wilhelmshaven og Legoland frábærar. Billund er skítaplace. Í sveitaborginni Wilhelmshaven hitti ég tvífara minn. Hann er nákvæmlega eins og ég í útliti, bara 20 sentimetrum lægri, snoðaður með skegg og ferlega líkur Magna.

Smellið á myndina til að sjá hana riiiisastóra.
Takið eftir bolunum sem við Árni erum í.. Ég hannaði og málaði á hans bol og hann gerði minn. Bolurinn hans er með brjóstmynd af honum sjálfum sem ég stenslaði á bolinn og undir stendur "Mugshot". Mug er nafnið á hljómsveitinni hans og mugshot þýðir brjóstmynd. Á bolnum sem ég er í stendur "Mein haar ist auf meine kugeln" sem gæti þýtt, allt mitt hár er á kúlunum mínum.

Nú er næsta markmið komið á blað...hálft maraþon í haust...hvað segið þið um það? Jón Óli sagði við mig að mamma sín væri miklu meiri nagli en ég, svo ég verð að passa upp á álitið og skella mér sem allra fyrst í 21 km.
Góðar stundir og myndir af börnunum koma fljótt.

Wednesday, May 14, 2008

Gorch Fock nálgast

Ég mynni áhugasama á að næstu helgi munum við hlaupa í virtu kapphlaupi erlendis....
Þetta verður skemmtileg ferð. Við tökum á móti Binnu, Ödda og co á fimmtudagskvöldið og leggjum svo í hann morguninn eftir. Við förum keyrandi á þremur bílum enda þrjár fjölskyldur á ferð, við, B&Ö&co og svo Árni, Soffía og dætur. Fyrsta stopp eftir ca 4 tíma verður í Hamborg, þar verður gist og svo haldið áfram til Wilhelmshaven. Þar munum við gista svo hlaupa og vinna, fá gorch fock bol í verðlaun og bruna svo til Billund. Við Billund er staðsettur skemmtigarður að nafni Legoland og þar fáum við hlaupagarparnir að skella okkur í þeysireið á vélknúnum apparötum. í Billund gistum við og morguninn eftir verður brunað heim. Þetta er planið fyrir helgina. Ég vil að lokum vekja athygli á áheitasöfnun minni undir yfirskriptinni "Hjurlef løber som en mug" hafið samband við Danskebank og leggið góðu málefni lið. Við þiggjum kvatningarorð í kommentin. Góðar stundir

Wednesday, May 7, 2008

Danskan



Ég er glataður í dönsku, það skilur mig enginn og ég skil fátt. Ég skil ekki einu sinni börnin mín þegar þau tala dönsku. Ég skildi samt alltaf dönskukennarana mína í skóla, með sinn íslenska hreim. En það er allt í lagi því Danir skilja varla hvorn annan. þeir bulla bara og í rauninni er danska ekki til sem tungumál. myndbandið sýnir hvernig hlutirnir ganga fyrir sig.

Monday, May 5, 2008

Eitt enn!!


Mér finnst svo gaman að heyra börnin mín tala dönsku og ef þið hlustið vel þá heyrið þið Jón Óla spjalla smá við þennan pilt. Ég fór á foreldrafund um daginn og þar sögðu kennararnir að hann hefði náð ótrúlegu valdi á dönskunni og að þær gleymdu oft að hann kæmi frá öðru landi.

Glæfrabörn






Fórum um helgina í skatepark uppi í Nørrebro, Þar fengu börnin að æfa samhæfingu milli líkamshluta. Eftir að heim var komið skelltu þau sér í flugnámskeið úr rólu. Allir sluppu ómeiddir og sælir. Smellið á stökkmyndina þá mun hún stækka uppúr öllu valdi og endilega horfið á myndbandið. Góðar stundir

Sunday, April 27, 2008

Gaman á ný



Jæja,, við Arndís höfum endurheimt jafnvægisstaðal fjölskyldunnar. Hildur og Jón óli eru loksins komin heim. Eyddum deginum útivið í 20 stiga hita og nutum samverunnar. Engar myndir frá endurfundunum, bara smá götulist og Arndís, Tara og önd í garðinum í gær. þá voru bara 16 stig. Stutt nú meira seinna.
P.S Til hamingju með afmælið Eva systir. Vonandi áttirðu góðan afmælisdag.

Saturday, April 19, 2008

Arndís og Pim


Arndís og nýja vinkonan Pim í rosa stuði. Ég varð að stökkva til og ná í cameru, þær voru kostuglegar fyrir framan sjónvarpið. Pim er dóttir veitingastaðar eiganda hér á horninu. Við sjáum henni oft bregða fyrir bak við afgreiðsluborðið eða úti í garði. Foreldrar hennar vinna langt fram á kvöld og hún er með þeim alla daga. Arndís hitti hana úti í garði í gær og mæltu þær sér mót svo aftur í dag. Móðir henna er frá Taílandi og pabbinn frá íran. Hún talar fimm tungumál og er voða hress og skemmtileg.
Föstudagurinn var danskur frídagur og var Arndísi boðið í afmæli til Idu Julie klukkan tíu um morguninn til eitt um daginn. Frábær tími til að halda afmæli, slítur ekki í sundur daginn nýtir morguninn vel. Arndís vaknaði snemma og byrjaði að hafa sig til, vakti mig svo klukkan hálf níu og bað mig um að setja í sig eyrnalokka, "ég er búinn að sótthreinsa þá" sagði hún bara.
Helgin hefur annars verið frekar viðburðarlítil, bara sól og blíða og fólk er farið að eyða meiri tíma utandyra.
Munið að setja nafnið ykkar í komment svo ég viti að einhver sé að skoða þetta,

Mjög hjálplegt kennslumyndband í DISCO-dansi frá frændum vorum Finnum



Ég er búinn að vera að fikta við Discodans og hef stuðst við þetta til að ná réttu sporunum.
Veit einhver hvaða lag þetta er sem spilast í lokinn? Takið eftir danssporinu hjá kallinum undir lok myndbandsins, ég sé ekki betur en að það haupi í hann einhver spasmi....

Tuesday, April 15, 2008

Glatt á hjalla, kallinn að fá skalla.


Rakst á þessa áðan og varð að deila henni með ykkur. Hún sýnir systkinakærleik og sprell um borð í Norrænu í fyrrasumar. Held að sjóveikisplásturinn hafi haft þessi áhrif, nema kannski að Arndís sé að verða þröngsýn!!

Monday, April 14, 2008

Svanur Svansson


Ég hef heyrt að ef þú hittir fullorðinn svan einan á ferð þá hafi hann misst sína ektafrú. Svanir velja sér einn maka yfir æfina og ef annað fellur frá þá dúsi hann í einsemd það sem eftir er.
Við fórum í gær að fallegu vatni sem heitir Furesø og liggur við Værløse. Þar kom að ótrúlega fallegur svanur sem sýndi okkur mikla athygli. Ég náði af honum nokkrum myndum þar sem hann svamlaði í kringum bryggjuna sem við stóðum á.
Eftir að heim var komið langaði mig að athuga hvort ég gæti fært honum svanessuna sína aftur og hér sjáið þið afraksturinn.

Sunday, April 13, 2008

Myndir frá helginni






Myndir af mæðginum, ungri fallegri snót, gestgjöfum, fallegri frú við málverk og kalli í sól. Smellið á myndir til að sjá stærri. Góðar stundir.

Nýjar Myndir






Myndir af tattoveraðri skjaldpöddu, flottum svan sem ég hitti í dag og fjöruferð okkar Arndísar,
Árna og dætrum hans Töru og Evu. Fleiri myndir koma fljótt.
Munið að smella á myndirnar til að sjá þær stærri.

Saturday, April 12, 2008

Grasekkillinn og dóttir hans


Var rétt í þessu að kveðja Hildi og Jón Óla, vona að þau muni hafa það gott á heimavelli.
Eins og segir í færslunni hér á undan þá fórum við í afmælismatarboð til Árna og Soffíu í gær.
Við Arndís fórum snemma til að taka þátt í undirbúningnum á meðan Jón Óli var hjá vini sínum honum Andreas og Hildur heima að læra og hvað haldiði??

Ég lenti í því að læra að búa til heimatilbúið sushi. Við suðum sérstök sushigrjón og gerðum svo allskonar brellur svo að þau myndu klístrast saman. Svo var tekið sölblað og bleytt lítillega, næst komu hrísgrjónin klístruðu og þar ofaná ýmist tuna, lax, krabbi, gúrka, jarðaber, mango og guakamolí.
Svo var þessu rúllað upp á sérstakri mottu, skorið og raðað upp af mikilli nákvæmni. Á meðan við Árni stóðum í þessu var Soffía að elda kjúklingabringur á priki(sticks), og ekki lítið af honum.
Þegar við loks settumst við borðið sáum við að þetta væri í raun nóg til að fæða heila fermingarveislu. Þannig að nú erum við Arndís að fara aftur til að hjálpa til við að klára að éta öll ósköpin áður en þetta skemmist.
Þetta lukkðist ótrúlega vel og þakka ég Árna og frú fyrir okkur.
P.S. nú er prófarkalesarinn minn farinn úr landi þannig að beðist er velvirðingar á villum ef nokkrar eru.

Friday, April 11, 2008

SKJALDPÖDDUR
















Hér er allt morandi í skjaldpöddum. Reyndar í búri og bara tvær , en skjaldpöddur eru það.
Krakkarnir glaðir með nýju meðlimina. Það er í rauninni voða gaman að fylgjast með þeim svamla um í búrinu og fylgast með öllu sem gerist í kring. Á íslensku köllum við þær skjaldbökur og það er erfitt að ná af þeim almennilegri mynd. Þær virðast stjórna focusinum á myndavélinni minni.
Við Jón Óli skruppum í bæinn um daginn og duttum inn í þessa búð, sem seldi "EKTA" brynjur og hjálma fyrir börn og fullorðna og J.Ó hélt að hann hefði fundið himnaríki á jörð. Bað afgreiðslumanninn um að ættleiða sig og pappírsvinnan er á lokastigi.
Á morgun, laugardag, fara Hildur og J.Ó heim í viku heimsókn. Ég og Arndís ætlum að hafa það notalegt á meðan hér í vorinu.
Arndís fékk pakka í pósti frá ömmu Sigrúnu í gær, innihaldið var sérprjónaðar legghlífar og vesti sem féll í góðan jarðveg hjá tískulöggunni A.
Af mér er það að frétta að ég stend mig enn vel í reykbindindindindindinu og er hættur á reykbindindindislyfinu sökum óþolandi aukaverkana s.s. svefnhöfgi og gelgjuþrymlar, minnkað snertiskyn og blæðandi gómur.
Fór á tónleika í gær með hljómsveit sem heitir Blonde Redhead og þótti mér það afar hressandi og í kvöld förum við í 33ára afmælismatarboð hjá honum Árna vini okkar í næstahúsi og konu hans og börnum. Þar er planið að taka í spil.
Nú er hlaupaprogrammið okkar rúmlega hálfnað og samt er ég enn að þyngjast. Hvað er málið!!
Ég er kominn óþægilega nálægt 0,1 tonni.
Kveð að sinni og munið að kommenta með nafni, því það er svo gaman.

Monday, March 31, 2008

Frá Arndísi


Hæ amma og afi og allir hinir. Mér fannst rosa gaman að lesa skilaboðin frá ykkur.
Ég sakna ykkar mjög mikið. Mér líður vel í Danmörku og nú skil ég alla dönskuna.
Ég og Jón Óli við erum rosa lega góð við kvort við annað.
Ég er búin að eignast nokkrar vinkonur sem heita Ida Julie en maður segir Ide Júje og hún lítur út eins og Kínverji, rosa skemmtileg, svo Frida, Marie og svo náttúrulega Tara. Ég sakna ykkar mjög mjög mjög mjög mikið kveðja Arndís.

Sunday, March 30, 2008

Helgin!!



Þetta var hörku helgi hjá Akrapakkinu. Reyndar var föstudagurinn tíðinda-lítill, en Hildur og Valgerður (skiptineminn okkar) fóru í Bíó um kvöldið og ég var heima með börnin og Töru vinkonu Arndísar. Jú og ég hljóp 5 km á 26 min. Ef einhver vill vita það.
Laugardagurinn var skemmtilegur!! Snemma dags kallaði Arndís á mig full af spennu og stolti og sýndi mér að hún væri með lausa tönn. Langþráð moment hjá henni.
Tara kom um 2 til Arndísar að æfa dansverk sem er búið að vera í vinnslu í vikunni. Magnús vinur Jóns Óla kom í snemmbúna næturgistingu og stuttu síðar droppuðu Siggi og Gunnhildur við með börnin sín og ekki leið á löngu þar til Pétur og Linda birtust líka.
Hildur skellti í vöfflur og ákveðið var að borða saman sushi og spila svo fram á nótt. Arndís og Tara dreifðu miðum til viðstaddra á frumsýningu dansverksins sem fara átti fram í svefn"sal" undirritaðs. Þá hringdu fyrstu boðsgestirnir bjöllunni, Árni og Soffía foreldrar Töru og Eva systir hennar.
Svo voru sýndir 3 dansar við 3 mismunandi lög. Ótrúlega vel æft og samhæfingin nánast óaðfinnanleg. Það var mikið klappað og Arndís ánægð með athyglina.

Svo vöknuðum við í morgun klukkutíma seinna en mögulegt er því klukkunni var breytt í nótt.
Nú erum við tveimur tímum á undan klakanum.

Það er komið vor!!



Röltum okkur í Bíó í dag og fundum að það er algjörlega farið að vora.
Komið brum á trén og ný lykt í borginni. Lykt vonar og ótta og hækkandi sólar, lykt þrár, ferðalaga og sólarvarnar. Lykt sláttuvéla og grænna putta, hundaskíts og rotnandi rusls, lykt svita, andfýlu og prumps. Það glaðnar yfir öllum og svipurinn breytist. Allt lifnar við.

Wednesday, March 26, 2008

Hlaupaæði hefur gripið um sig !!!!

Við Hildur höfum bæði blásið út síðustu mánuði, samt aðallega ég vegna kyrrsetu og iðjuleysis og var kominn tími til að gera eitthvað í málunum. Allavega áður en ég hætti að sjá á mér tærnar. Lausnin var að byrja að hlaupa, og það ekkert smá. Minnst þrisvar í viku og hlaupnir eru 5 - 10 kílómetrar í hvert skipti. Ótúlegt nokk þá er bara nokkuð gaman að þeysast framhjá reykjandi aumingjum í göngutúr út í búð eftir næsta pakka, og ég með rjúkandi rokktónlist í eyrunum að hugsa um heilbrigt líferni. Gæti ekki verið betra.
Samt til að vera hreinskilinn þá hélt ég í alvöru að ég gæti ekki hlaupið lengra en 300 metra, þannig að það er líka mikilvæg kvatning að koma sjálfum sér á óvart.
Við erum búin að hlaupa í ca mánuð og stefnan er sett á að hlaupa Gorch-fock-marathonið þann 18mai. Já við fundum okkur marathon með asnalegasta nafninu, en það er í Þýskalandi nálægt dönsku landamærunum. Reyndar ætla ég að hlaupa 10 km og Hildur hálfmarathon.
Þar sem ég hef ekki stundað hreyfingu síðan ég hætti að veiða fiðrildi þá var mér ráðlagt frá því að hlaupa hálft en ég set markið á 10 kílómetra á undir 50 mínútum. Helst 45-7 mín. Shitt ég er að setja þetta á netið sem þýðir "no turning back"....

Hvað á þetta að þýða?

Hæ allir!!! Langaði bara að koma fréttum og myndum af okkur til áhugasamra.
Þar geta þeir fengið að fylgjast með framförum okkar á sviði alheimsborgara, menningarvita og tungumálafrömuða. Það er að segja ef ég nenni að halda þessu uppi í einhvern tíma.

Tuesday, March 25, 2008

Smá sýnishorn

Þetta er það sem ég er að leika mér að þegar ég hef tíma. Þetta eru allt myndir sem ég hef tekið sjálfur og síðan breitt í Photoshop.
1. Þetta eru börnin mín blönduð saman. Ætli þriðja barnið verði ekki svona útlítandi.
Hvort þeirra sjáið þið betur?

2. Hér erum við síðasta sumar undir Eyjafjöllum. Ég náði mynd af blóðrauðum himninum út um svaladyrnar á Ökrum, yfir Úlfarsfelli og bætti honum inná.




















3.Hér er svo Jón Óli á dranganum við Skarðshlíð að smita út sjarmanum og persónutöfrunum sem hann fékk í vöggugjöf. Sami rauði himininn og á mynd 2

4. Þetta er stytta í Glyptotekinu (safn) við tívolíið sem ég eignaði mér.

5. Við Hildur skruppum í búð á Enghavevej um daginn og þar var auður stór veggur með einu andliti á og við nánari athugun sá ég að þetta var ég sjálfur að kíkja inn frá hliðstæðri veröld.

Athugið að hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær stærri.
Og endilega verið dugleg að kommenta, okkur þykir vænt um að sjá orðsendingar frá ykkur