

Þetta var hörku helgi hjá Akrapakkinu. Reyndar var föstudagurinn tíðinda-lítill, en Hildur og Valgerður (skiptineminn okkar) fóru í Bíó um kvöldið og ég var heima með börnin og Töru vinkonu Arndísar. Jú og ég hljóp 5 km á 26 min. Ef einhver vill vita það.
Laugardagurinn var skemmtilegur!! Snemma dags kallaði Arndís á mig full af spennu og stolti og sýndi mér að hún væri með lausa tönn. Langþráð moment hjá henni.
Tara kom um 2 til Arndísar að æfa dansverk sem er búið að vera í vinnslu í vikunni. Magnús vinur Jóns Óla kom í snemmbúna næturgistingu og stuttu síðar droppuðu Siggi og Gunnhildur við með börnin sín og ekki leið á löngu þar til Pétur og Linda birtust líka.
Hildur skellti í vöfflur og ákveðið var að borða saman sushi og spila svo fram á nótt.

Arndís og Tara dreifðu miðum til viðstaddra á frumsýningu dansverksins sem fara átti fram í svefn"sal" undirritaðs. Þá hringdu fyrstu boðsgestirnir bjöllunni, Árni og Soffía foreldrar Töru og Eva systir hennar.
Svo voru sýndir 3 dansar við 3 mismunandi lög. Ótrúlega vel æft og samhæfingin nánast óaðfinnanleg. Það var mikið klappað og Arndís ánægð með athyglina.


Svo vöknuðum við í morgun klukkutíma seinna en mögulegt er því klukkunni var breytt í nótt.
Nú erum við tveimur tímum á undan klakanum.